þriðjudagur, 17. desember 2013

 Langaði að henda inn uppskriftum að því sem ég hef verið að prófa undanfarið sem mér persónulega finnst gott, svona svo þetta týnist ekki og svo einhver annar geti kannski notið góðs af:)

Störtum þessu með Súkkulaði könnu köku:)



Könnusúkkulaðikaka


  • 1 matskeið + 2 tsk kakóduft
  • 3 matskeiðar spelt hveiti ( Annað hollt hveiti, ég notaði 2 matskeiðar heilhveiti og 1 matskeið hafrahveiti )
  • 1/8 tsk salt
  • 2 tsk sykur eða annað sætuefni sem mælist eins og sykur (Ég er búin að prufa stevia og sukrin, gaman að prufa sig áfram:))
  • 1/4 tsk lyftiduft
  • 1 pakki Stevía ( Eða 1 matskeið sykur í viðbót)
  • 2-3 tsk kókosolía eða önnur holl olía ( Getur notað ósæta eplasósu eða stappaðan banana )
  • 3 msk mjólk (Ég nota möndlumjólk)
  • 1/2 tsk vanilludropar

Blandaðu þurru hráefnunum saman og hrærðu mjög vel saman. Bættu við fljótandi hráefnunum, settu svo í könnu sem hefur verið spreyjuð. ( Ef þú vilt taka kökuna úr ) Settu í örbylgjuofninn í 30-40 sekúndur.

 Kalóríur: 205 með olíu (140 kalóríur án olíu)
Fita: 12 g með olíu (2g án olíu)
Kolvetni: 30g
Trefjar: 6.5g
Prótein: 5.5g
Fæ mér þessa alls ekki oft en ef ég er að drepast úr súkkulaðiþörf þá finnst mér þessi æðisleg, fljótleg og mun hollari en þessi klassíska!

Svo í dag gerði ég bláberjamuffins í kaffinu en það það er vel hægt að borða þær t.d. í morgunmat án nokkurs samviskubits, erum ekkert að hata það!:)




Bláberjamuffins með hollustuívafi
  • 1 1/2 bolli haframjöl
  • 1 bolli möndlumjólk
  • 1/2 bolli sukrin púðusykur ( eða venjulegur púðusykur en þá eykuru kalóríuinnihaldið;))
  • 2 msk agave (eða annað sætuefni í fljótandi formi, t.d hunang. Það er örlítið hærra í kalóríum en agave en margir vilja meina að það sé mun betra fyrir þig, kem að því í seinni bloggum)
  • 1/2 bolli eplamús (eða stappaður banani, bragðið breytist þó)
  • 2 eggjahvítar
  • 1 msk olía (kókosolía eða önnur holl olía)
  • 1/2 bolli heilhveiti ( ég blandaði saman hafrahveiti og heilhveiti)
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1 tsk matarsódi
  • 1/2 tsk salt
  • 1 bolli fersk bláber ( Ég setti mín í frystinn í smá stund svo að þau myndu ekki leka út um allt )

 Forhitaðu ofninn, 200° 
Settu haframjölið í matreiðsluvél og tættu það í smástund. Helltu yfir það mjólk, hrærðu saman og láttu þetta bíða í um 30 mínútur. ( Ekkert alltof heilagt) 

Blandaðu saman sykrinum, agave, eplamúsinni, vanilludropunum, eggjahvítunum og olíunni og blandaðu vel. 

Í þriðju skálina blandaðu saman hveitinu, saltinu, lyftiduftinu og matarsódanum. 

Blandaðu svo saman haframjölinu í mjólkinni við agaveblönduna og hrærðu vel. Bættu þurrefnunum varlega við. Bættu svo við bláberjunum og hentu í muffinsformin.


Tími: 20-24 mín, fer eftir ofni.



Að pönnukökum! Ég er komin með æði fyrir að gera pönnukökur og kærastinn getur vottað fyrir það:) Ég prufaði súkkulaði pönnukökur um daginn sem ég var ansi sátt með svo þær fá sinn stað hérna á blogginu.



Súkkulaðipönnsur með sýrópi 



  • 1/4 bolli spelt hveiti eða heilhveiti
  • 1/4 tsk lyftiduft
  • 1 msk  kakó
  • 1 og 1/2 pakki Stevía( eða 1 msk plús 1 tsk sykur )
  • 1/16 tsk salt
  • 1 and 1/2 msk eplamús or olía (Gott að nota 1 msk olíu og 1/2 matskeið eplamús)
  • 1 tsk vanilludropar
  • 5 og 1/2 msk mjólk að þínu vali
Blandaðu þurru innihaldsefnunum saman og blandaðu þeim svo saman við blautu. 

Kalóríur: 130.
Ath. Þetta er mjög lítil uppskrift samt, ég tvöfalda hana sem gerir semsé kalóríurnar 260 (vá góð að reikna, þetta tók bara nokkrar sekúndur), kannski svolítið háar í kalóríum þannig en ég fæ mér pönnukökur bara stundum og oftast í morgunmat. Það er algjörlega í lagi að ætla sér 200-400 kalóríur í morgunmat, sumir segja að hann eigi að vera stærsta máltíð dagsins:) Mér alla vega finnst ekkert verra að fá mér súkkulaði pönnsur í morgunmat með súkkulaði sýrópi og leyfi mér það með góðri samvisku!

Ahh, svona ef þið vissuð ekki um þetta gersemi:
0 kalóríur.
Mælt með af fitness fólki, Röggu Nagla og fleirum;)
Súkkulaði, karamellu og margt fleira, yummí!


Stundum langar manni bara í pizzu..! Og þá er þetta nú sniðugri lausn, mjög bragðgott og seðjandi, ég get yfirleitt ekki klárað hana.
BBQ pizza
 Fyrir 1

  • 1 lág kolvetna vefja (t.d La Tortilla)
  •  Rifinn kjúklingur ( Foreldaður)
  • 1 matskeið BBQ sósa
  • 1-2 msk skorinn laukur
  • ½ bolli sveppir
  • 1/8 bolli fitulítill ostur
  • Ég bætti við spínati eftir að ég tók myndina;)
Forhitaðu ofninn á 175° hita.
Bakaðu í 10-12 mínútur og auktu þá hitann í 2-3 mínútur svo vefjan verði gullin og stökk.

Kalóríur: 200
Fita: 6 g
Kolvetni: 19 g
Trefjar: 8 g
Prótein: 21 g

Svo komum við að kaffinu. Frappucchino! 

Eða okey, ég viðurkenni, það er skömm að kalla það kaffi, en þar sem ég kann ekki að drekka kaffi, þá er þetta ágæt afsökun fyrir kaffi handa mér;) Stundum fæ ég þörf fyrir kaldan drykk með kaffikeim, já alveg satt, og þá næ ég í heimagerða Frappucchino-ið í frystinn og hendi í blandarann.


Hollt Frappucchino


(Fyrir 2)

  • 2 bollar mjólk ( Ég nota alltaf möndlumjólk)
  • 1/2 tskpure vanillu dropar
  • 2 tsk kaffi (ég nota reyndar meira, ótrúlegt en satt)
  • 1/16 tsk salt (ekki henda bara einhverju ofan í, ekki gott að hafa of mikið salt!)
  • Sætuefni eins og 3 pakkar af Stevia ( eða um 2-3 matskeiðar Sukran nú eða 2-3 matskeiðar venjulegur sykur ef þú vilt þetta alvöru)
Kalóríur: 45
(Til gamans má geta að venjulegur Frappucchino er um 220 kalóríur) 

Læt þetta nægja í bili, á svo miklu meira inni sem ég þarf að henda inn og svo margt sem ég á eftir að prufa!





sunnudagur, 15. desember 2013

If first you don't succeed, dust yourself off and try again

Okey. Nú verð ég að vera hreinskilin við sjálfa mig og aðra og koma með mína játningu þar sem ég ætlaði að vera heiðaleg í gegnum allt þetta ferli. Mér er búið að ganga illa, mjög illa!

Ég varð mjög slöpp og varð á endanum veik og ég mætti nánast ekkert í ræktina í viku, í þetta skipti sem ég mætti þá var lyft 1 kílóa lóði í hálfkæringi á meðan ég gjóaði augunum á útidyrahurðina!
Það er virkilega erfitt fyrir mig að halda matarræðinu hollu þegar hreyfingin er ekki í samfloti og ennþá erfiðara þegar ég er veik:/ Þá er ég ekki að fara að elda mér eitthvað svakalega hollt, þá er reyndar mun auðveldara að hringja í Dominos og panta pizzu sem var gert á þessu heimili.
Ég er heldur ekkert að tala um að ég hafi dottið smá af sporinu, ég fór bara all in sem ég hef ekki gert áður á þessu ferli mínum! Matarskammtarnir stækkuðu, ég borðaði það sem ég vildi, fór að lauma inn sykruðum drykkjum með mat og alltaf eitthvað borðað á kvöldin eftir kvöldmat. Ég hoppaði líka á vigtina eftir þetta sukk mitt sem er búið að endast núna í um 9 daga og 2 kíló eru komin til baka sem ég varð ekkert hoppandi kát með! Svo núna er ég 58,5 kg. (Var rúmlega 26% í síðustumælingu)
Ég fór í andartaks fýlu. Eða okey, ég varð alveg brjáluð, hljóp að kexpakkanum, tróð í mig 6 kexkökum í einu og tautaði með sjálfri mér að mér væri sko alveg sama. (Algjörlega það sem er sniðugast að gera þegar maður er brjálaður yfir því að þyngjast...)
 En svo gerðust undur og stórmerki!
 Ég fór ekki í þunglyndi og ég varð ekki leiðinleg við sjálfa mig.
Ég ákvað að skamma mig ekki, ég ákvað að ég væri ekki búin að eyðileggja allt sem ég hef gert (þrátt fyrir að þetta hafi sett strik í reikninginn) og að ég skyldi ekki láta þetta aftra mér frá því að ná mínum endanlegu markmiðum!
 Ég datt aðeins niður en þá er bara að standa upp og byrja aftur sterk og ég ætla mér að vera stolt af mér fyrir að hafa actually byrjað aftur í staðinn fyrir að hugsa bara að allt sé ónýtt. Því það er bara kjánalegur hugsunarháttur, ég gat þetta einu sinni (ekki fyrir svo löngu síðan;)) og þá get ég þetta svo sannarlega aftur:) Ahh eitthvað hefur síast inn sem hún móðir mín kær hefur reynt að berja í hausinn á mér öll þessi ár!

Svo lexían í dag krakkar! Ef þið dettið af sporinu sem er í rauninni bara bound to happen í einhverju formi þótt það gæti verið bara lítið slip up (enskusléttur..) þá  skiptir mestu máli að koma sér af stað aftur! Vita að þú getur ekki breytt fortíðinni en þú getur lært af mistökunum og bætt þig.


Ég hlakka til á morgun, þá mun ég aftur fara að borða hafragrautinn sem ég er farin að sakna, ætla að heilsa aftur upp á grænmetið og ég reyni að vera aktív hérna heima. Svona þar sem ég efast um að það sé sniðugt að fara í ræktina veikur! Held að ég nái ekki markmiðinu mínu fyrir Danmerkuferðina þar sem hún er eftir mánuð en ég mun reyna mitt besta að komast eins nálægt því og ég get. (24% í fitu og 55,5 kíló en það þýðir -2% og 3 kíló á mánuði!!!) 

föstudagur, 6. desember 2013

Tilraunarstarfsemi Rimasíðu

Jæja nú er ég loksins búin að losna við alla pokana af bekknum og það er ekki jafn ruslaralegt og það hefur verið! Það er ekkert sérstaklega gaman að missa fræ og annað alltaf á bekkinn þegar pokarnir detta á hliðina svo nú er ég hætt að vera pirruð;) 


Okey, smá ruslaralegt ennþá en þó mun skárra!
Hollustuhornið í Rimasíðu;)
Annars langaði mig að henda inn nýja uppáhalds morgunmatnum mínum, það er ótrúlegt en satt hafragrautur!
Hnetusmjörs-og banana hafragrautur!
Hins vegar ekki þessi sem ég neyddi ofan í  mig á hverjum degi, bragðlaus með smá vatnsbragði, ónei! Nýja uppáhaldið mitt er hafragrautur með stöppuðum banana og hnetusmjöri, namminamm:) Er farin að hlakka til að vakna til að borða þetta og þetta er svo einfalt og tekur bara nokkrar mínútur ,ég er semsé hætt að standa yfir pottinum að hræra!

Annars er þessi "mikla" uppskrift svona!

  • Hálfur þroskaður banani, stappaður
  • 1/4 bolli mjólk (ég nota möndlumjólk!) 
  • 1/4 bolli haframjöl
  • 1/2 matskeið hnetusmjör 
Öbbinn í um 40 sekúndur og voila, svo hollur morgunmatur! Fullt af trefjum, góðum vítamínum, góðri fitu og þetta gefur mér alltaf svo mikla orku fyrir daginn:)

Svo gerði ég morgunverðamuffins til að eiga í frystinum, gerði nóg af þessu, þægilegt að geta hent þessu í öbbann ef ég vill fá smá tilbreytingu.

Hnetusmjörsmuffins með súkkulaðisósu
Uppskriftin:


Fyrir 1
  • 1/2 bolli haframjöl (50g)
  • 1/4 tsk vanilludropar
  • 1/4 bolli stappaður banani (eða annar stappaður ávöxtur) ég vill hafa minn veeel þroskaðan og set reyndar örlítið minna en 1/4 bolla)
  • 1/4 bolli mjólk af þínu vali (ég nota möndlumjólk) 
  • 1 pakki Stevia sætuefni eða 1 1/2 fljótandi sætuefni eins og hlynsýróp eða agave. Ef þú notar fljótandi þá er best að minnka mjólkina örlítið, t.d. um 2 matskeiðar)
  • 1/8 tsk salt
  • 1 msk kakó
  • 1-2 msk hnetusmjör

Forhitaðu ofninn á 175°, spreyjaðu muffinsformbakka með olíu og bakaðu í 20 mín. Auktu síðan hitann í 200° í um 3 mín til að þær verði crispy að utan.

Kalóríur fyrir 2 muffins: 280

(Tvær muffins eru meira en nóg fyrir mig, er rosalega södd eftir þær og þetta er svo saðsamt að það er ótrúlegt! Flottur morgunmatur, fullt af góðri fitu, trefjum og the gúd stöff)

Ég hef enga sérstaka uppskrift fyrir súkkulaðisósuna, ég blandaði saman kókosmjólk, súkkulaðipróteini, stevía og smá súkkulaðisýrópi.

Á eftir að henda inn fuuullt af uppskriftum svo stay tuned!:D




miðvikudagur, 4. desember 2013

Just getting started!

Síðustu dagar hafa verið awsom! 
Búið að ganga svo vel allt saman, finnst orðið svo gaman að fara í ræktina og nú er ég orðin óð í að prufa nýja hollusturétti!  

Ég er búin að liggja á netinu og lesa mér til um næringu og ég býst við að ég muni henda hérna inn ýmsu tengdu næringu, það sem ég er að kynna mér hverju sinni, svo ég geti haldið utan um þetta einhverstaðar:)
Ég er semsé algjör sætufíkill eins og hefur örugglega komið fram, ég borðaði sykur og nammi nánast á hverjum degi og það var mér mjööög erfitt að hætta því. Ég varð að einhverju skrímsli þegar ég hætti (er samt ekki hætt að borða sykur eða nammi sko, fæ minn nammidag!)varð svakalega pirruð, hreytti í kærastann eins og mér væri borgað fyrir það og leið illa yfir því að mega ekki fá mér! Varð reyndar eins og 10 ára og fór í fílu yfir því að mega ekki fá mér, fannst þetta bara rugl og fannst ömurlegt að banna mér eitthvað! Greyið kærastinn getur vottað fyrir þetta þar sem hann lenti aðalega fyrir grýlunni...

En sem betur fer er það að mestu liðinn tími, ég er líka búin að uppgötva að það þarf barasta ekki að vera leiðinlegt að borða hollt! Ég sá alltaf fyrir mér sellerí og kál þegar ég hugsaði um hollustu og fannst það ekki beint heillandi kostur en það er bara alls ekki þannig!!! Komst að því með mínu vafri, ég get fullnægt sætuþörfinni minni á hollan hátt og með minni kalóríurfjölda, vúhú! 

Það er svo margt sem ég á eftir að prufa að gera enda bara nýbyrjuð en ég er svo spennt yfir öllum möguleikunum:)
Ég er hingað til búin að búa til nokkrar gerðir af pönnukökum, eina með súkkulaðisósu, vanillusósu og svo fékk ég mér eina með smá hlynsýrópi, allt hollt og gott fyrir líkamann! Að sjálfsögðu er frekar mikið af kalóríum í hlynsýrópinu en það er ekki eitthvað sem ég fæ mér oft eða mikið af, það er alla vega gott að vita að það er samt álitið hollt og gott;)
Ég hef einnig gert súkkulaðihnetusmjörsmuffins og heimagerðan ís, besta við þetta allt saman er að þetta er allt undir 300 kalóríum, snilld að geta fullnægt sætufíklinum svona og ekki verra að fá sér súkkulaðimuffins með ís í morgunmat!!! Án samviskubits;)

Ætli ég fari ekki síðan að pósta þessum uppskriftum mínum til halda utan um þær ( á þær reyndar ekki!!) og vonandi getur þá einhver annar notið góðs af:) 

Læt fylgja með nokkrar myndir af því sem ég hef prufað að gera, mis girnilegt hjá mér hehe en samt allt mjög gott:) Mest af þessu í morgunmat, stútfullt af trefjum, vítamínum og orku, frábært fyrir ræktina!








Annað í fréttum:
- Ég er offically búin að missa 10 kíló síðan í byrjun ágúst!
- Gellan með stóru júgrin ( E ) var að passa í DD brjóstahaldara! VÚHÚ!
Var næstum mitt langþráðasta markmið, að minnka þessa búbba!
- Það virðist vera farið að sjást smá "definition" á greyið handleggjunum mínum, alla vega eftir lyftingar;) Sést samt varla venjulega en það kemur vonandi seinna. En okey, nóg komið af mér, hvað segir þú!?
Endilega hendiði kommenti á mig þið sem lesið, eins og ég hef sagt þá ítir það í mig að vita að einhver sé að fylgjast með:)

Vandræðaleg að laumast til að taka mynd!



föstudagur, 29. nóvember 2013

Updeit!

Ég er sko ekki hætt!

Þessi vika er reyndar búin að vera ansi strembin. Á laugardaginn síðasta fór ég í brúðkaup og drakk kannski svona einu hvítvínsglasi of mikið (lesist 10) og ég eyddi sunnudeginum í mestu þynnku sem ég hef fengið held ég og það varð því ekkert grænmeti eða hafragrautur þann daginn. Hverjum hefur einhverntímann langað í hafragraut þegar þeir vakna með þynnku!!!?
 Reyndar lýsti makinn yfir alþjóðlegum sukkdegi og það þurfti ekki beint mikið til að ég myndi samþykkja! Obbobobb...

Mánudeginum var eytt í magaveikindi svo engin rækt þá, fann líka hvernig ég missti smá motivation, langaði bara að hella mér í nammi og sleppa alveg að mæta í ræktina. Hins vegar mætti ég samt á þriðjudaginn í ræktina sem var akkúrat það sem ég þurfti á að halda því hausinn fór aftur á réttan stað og ég varð spennt aftur fyrir þessu öllu saman;)

Fimmtudagurinn varð svo frábær dagur fyrir mig í ræktinni. Þá var fótadagur og ég bætti mig í öllu, þyngdi í öllu og tók 6 kílóa lóð með mér í dauðagönguna (framstig), sem er alla vega mikið fyrir mig. Reyndar sá ég gellu um daginn sem tók um 15 eða 20 kíló í sömu göngu, ég ákvað að ég ætlaði að vera þessi gella! Ótrúlegt hvað það gerir mikið fyrir mann að bæta sig og þyngja, það er svo góð tilfinning:)

Annars er vigtin ennþá á leiðinni niður, hægt og rólega þó sem er bara gott.
Síðast stóð 57,9 kg.

Svo fór ég í mælingu þan 22 nóv, semsé hálfum mánuði eftir síðustu mælingu og þetta eru niðurstöðurnar:
8 nóv: 28,17%
22 nóv: 26,80%



Kálfar
Læri
Rass
Nafli
Mitti
Brjóst
Upphandleggur
(í spennu)
Upphandleggur
(í slökun)
1.mæling (14 nóv)
33
56
101
85
81
94
28,5
27
2. mæling
(8 nóv)
33
53
98
79
73,5
91
29,5
26,5
3.mæling
(22 nóv)
32,5
50,5
94,5
76
70
-
28,5
26
Mismunur
-0,5
-5,5
-6,5
-9
-9
-3
0
-1

Ég er líka farin að prufa mig áfram með hollt hráefni, eitthvað sem ég hef aldrei prufað áður. Þá er ég ekki að tala um grænmeti og svoleiðið heldur eins og möndlumjólk, kókosmjólk, ýmsar hnetur, smoothies, próteinklatta, hunang og svo framvegis. Ég prufaði líka um daginn að gera hollustu brownies (alla vega mun hollari en venjulegu!) og þær komu bara ágætilega út! Semsé í staðinn fyrir alvöru sykur þá þá nota ég t.d. stevia eða agavesyrup (eru reyndar skiptar skoðanir um þetta eins og annað), nota smá heilkornahveiti í staðinn fyrir venjulegt, 70% súkkulaði í staðinn fyrir mjólkursúkkulaði og þetta kom vel út. Alveg kalóríur í þessu samt, enda er ég ekki að fara að tríta mig með þessu öll kvöld;)

48 dagar í Danmörk!
260 dagar í brúðkaup! 






miðvikudagur, 20. nóvember 2013

Jæja, lífstílsuppdeit! 

Síðustu dagar hafa verið svolítið erfiðir fyrir mig þegar kemur að því að matarræðinu og reyndar hreyfingunni líka. Ekkert mál þegar ég er komin í ræktina, þá er þetta bara gaman en ég á stundum hrikalega erfitt með að koma mér af stað í ræktina! Ég hef ekki ennþá svindlað og sleppt að mæta, ef ég mæti ekki þennan dag þá bæti ég það upp hinn daginn sem ég hefði átt að fá frí og æfi, er semsé enn að mæta 5x í viku og ætla mér að sjálfsögðu að halda því áfram:)

Ég er enn dugleg í mataræðinu, passa mig á að borða alltaf morgunmat (yfirleitt alltaf hafragrautur sem er samt ekki beint uppáhaldið mitt!) og svo borða ég um 5-6x máltíðir á dag með 3 tíma millibili.
Passa mig á að fá mér prótein eftir ræktina og að velja vel hvað ég borða í kvöldmat, ég er hinsvegar alls ekki öfgafull í þeim efnum. Venjulegur heimilismatur eins og lasagna og annað er á boðstólnum en ég passa mig á skammtastærðinni og að drekka glas af vatni fyrir.
 Eins vel ég að setja ekki rjóma í sósur, nota spreyolíu og lítið af henni, 11% ostur yfir fiskirétti, léttur smurostur í staðinn fyrir venjulegan og svo framvegis. 
Ég borða sjaldan brauð, ef ég fæ mér þá er það lífskornabrauð, elska að setja hnetusmjör og banana á það! 

Svo er ég ótrúlega ánægð með að ég borða núna grænmeti á hverjum degi, kellan sem hafði ekki sett svoleiðis inn fyrir sínar varir í mööörg ár;) Mér finnst gott að gera eggjahræru með grænmeti og kjúkling og það er aðeins of oft í hádegismat hjá mér en mér finnst það bara svo gott og þægilegt að eiga afganga en ég ætla mér að prufa mig áfram!

Svo matarræðið í sjálfu sér gengur vel en það er bara þörfin í að maula á einhverju á kvöldin sem er alveg að fara með mig, ég er súkkulaðióð! Ef mig langar í eitthvað þá er það súkkulaði eða kex og ég var t.d. að gera kallinn brjálaðan í gærkvöldi því mig langaði svo í POLO kex!!! Svo það var skundað í eldhúsið og gert nokkrar tilraunir til að gera hollt nammi sem tókst alls ekki svo ég bíð með löngun eftir laugardeginum! Þá verður fengið sér polokex! Og Brynjuís! Og súkkulaði! Og kannski smá kökur..;)

Að markmiðum! Ég er farin að þyngja í öllu í ræktinni þótt það sé ekki enn hægt að segja að ég sé að taka einhverjar þyngdir;) En að því tilefni að ég sé farin að þyngja þá vígði ég grifflurnar mínar og fannst ég helvíti töff með 10 punda lóðín mín;)
Þann 18 október skrifaði ég hérna að ég ætti markmið og það væri að passa í buxurnar ,sem ég birti mynd af, fyrir Danmerkurferð. Ég var að ná því markmiði, vúhú! Smá mynd til sönnunar;)
Komst í buxurnar og gat hneppt þeim, vúpvúp!


Svo er vigtin ennþá á leiðinni niður, í dag var ég 58,5 kg sem ég er sátt við. Aðalmarkmiðið er að losna við fituna og svo að tóna sig upp og þá er mér alveg sama hvað vigtin segir því eins og flestir vita eru vöðvar þyngri en fita! En á meðan ég þarf að losna við lýsið þá horfi ég smá á vigtina ennþá.

Þetta var ekki mest spennandi blogg í heimi en vildi bara gefa smá update! Svo mun ég væntanlega setja fyrir og eftir myndir fyrir Danmerkurferðina ( efég fæ hugrekkið til þess) en þá er eins gott að ég verði dugleg! Eins og Britney vinkona mín segir: You better work bitch!

miðvikudagur, 13. nóvember 2013

Ferðarbabbl

Nú er kominn vetur, ég veit það því rassinn er að frjósa af mér á hverjum degi! Ég er orðin að einhverri skjálfandi rúst sem er alltaf grafin í lögum af fötum (ætti kannski að fara að athuga með ofnana hérna heima!) og akkúrat núna sit ég og skrifa í tveimur peysum með ullargrifflur á höndunum en er samt kalt! Svo í tilefni þess hversu ógeðslega kalt mér er þá er ég að sjálfsögðu búin að liggja á netinu að skoða girnilegu heitu löndin.

Ég hef verið svo heppin í lífinu að ég hef getað ferðast aðeins þótt að staðirnir séu ekki svo margir.
Ég hef farið til Danmerkur, Rota, Mallorca, Costa del Sol, London, Manchester og Orlando. 

Danmörk- Bekkjaferðarlag í 9 bekk. Skemmtilegt, skoðuðum litlu hafmeyjuna og komumst að því að hún er ekkert svo merkileg en strákarnir skemmtu sér að því að káfa á brjóstunum á henni, við fórum í lególand og tívólíið og vorum með almenn unglingalæti.

Rota- Í tíunda bekk var nokkrum bekkjafélögum boðið í ferð, það var auðvitað verið að verðlauna góðan námsárangur (fake it til you make it) og ég fékk að fljóta með. Þessa ferð hef ég greinilega valið að grafa langt í undirmeðvitundinni því ég man ekkert! Mér hefur verið sagt að við hefðum sofið í kofum sem við fengum að deila með nokkrum indælis pöddum og kóngulóm, þar sem var engin loftræsting, almenningklósett, biðröð eftir sturtu og óþægileg rúm. Held að fancy Amanda hafi ekki ráðið við þessa villmennsku og hafi því valið að grafa þetta lengst niðri. ( Ef einhver bíður mér í óvænta ferð út þá má sá hin sami bjóða mér á 5 stjörnu hótel þar sem nudd er innifalið og ekki er verra að geta komist í búbblubað, kv. sú sem myndi aldrei ráða við að fara í interrail). Og já, ég týndi vegabréfinu mínu víst og við skulum ekki fara út í öll vandræðin sem fylgdu því ævintýri!

Mallorca - Stelpuferð, við vinkonurnar hlógum, grétum, rifumst, spiluðum oftar en við fórum á djammið,  ein brann svo mikið að hún gat ekki komist upp úr rúminu, flatmöguðum á ströndinni (nema sú sem var alltaf að brenna) og versluðum! Skemmtileg ferð.

London- Kærastinn bauð mér til London í tilefni á 2 ára sambandsafmæli. Við fórum í London eye, horfðum á Big Ben með lotningu, fórum á vaxmyndasafnið, skoðuðum múmíur á safni. Við ákváðum síðasta daginn að fara í dýragarð en sáum að honum yrði lokað bráðum svo við ákváðum að taka Jón sprett á þetta, ég er ekkert að grínast, við hlupum í örugglega hálftíma. Þegar við vorum komin á leiðarenda, sveitt og andstutt (ég lá á götunni grenjandi) þá komumst við að því að við hefðum horft á vitlausan dag og það var lokað. Ekki skemmtilegasta sem ég hef gert.
Annað sem er eftirminnilegt er að á lestarstöðinni ákváðum við að við yrðum fljótari að fara upp stigann heldur en að taka lyftuna... Það var versta ákvörðun sem við höfum tekið því það voru tröppur, eftir tröppur eftir tröppur og það tók okkur um 20 mínútur að fara upp. Og já, við vorum með ferðatöskur.
Svo má ekki gleyma að apperantly hélt ég að það yrði sumar og sól í London 14 desember svo ég var ekkert sérstaklega vel klædd, því eru minningarnar svolítið litaðar af kulda og aftur kulda. Var ég búin að minnast á KULDA!? Samt mjög skemmtileg ferð og ástin blómstraði, í kuldanum.

 Costa del sol- Mesta fratferðin ótrúlegt en satt! Það var mjög skítugt þarna, sjórinn var kaldur, ströndin var skítug, maturinn ekkert sérstakur, gestrisnin ekki mikil og ég varð veik!  Er enn í fýlu eftir þá ferð.

Manchester - Við systurnar buðum pabba út í tilefni 50 ára afmælis! Það var slakað á, drukkið bjór (uhh kók í mínu tilfelli, kráir í Manchester eru ekkert rosalega hrifnar að því að bjóða upp á gosbjór;)) og bondað við pabba gamla. Já og verslað! Minning sem mér þykir vænt um. 

Orlando- Besta ferð EVER! Yndislegt fólk, góður matur, auðvelt að ferðast um, geggjaður staður! Fórum í Disney world og universal studios og það var alveg hægt að gleyma sér þar. Það var svo brjálæðislega heitt þarna enda hitabylgja en það skipti engu máli, við vorum alsælJ Eftirminnilegast utan við garðana var þegar við fórum eitt kvöldið í bíó. (Bíómyndin sjálf var ekkert svo eftirminnileg sko) Eftir bíóið þá fórum við niður tröppurnar og út dyrnar þar eins og maður gerir hérna í bíó nema hvað að þegar hurðin skall í lás á eftir okkur þá tókum við eftir tvennu. Við vorum ein og við vorum stödd í óuppgerðu, óupplýstu rými. Ég sá fyrir mér að við myndum festast þarna inni og finnast mörgum dögum seinna en sem betur fer fær fólk ennþá að njóta samvista við okkur;) Við fórum í gegnum ótal herbergi og enduðum á einhverju túni, þurftum að troðast undir girðingu og loksins komumst við til manna, það stóðu verðir hjá girðingunni sem litu mjög illilega á okkur, skildu greinilega ekki alveg hvað við værum að gera. Við brostum hinu blíðasta, ég þurrkaði drulluna af hnjánum og ákvað að þetta yrði skemmtileg minning.

Eins og ég hef minnst á, þá erum við hjúin að fara að gifta okkur í ágúst á næsta ári og oft fylgir eitt stykki brúðkaupsferð með. Svo núna erum við í reyna að ákveða hvert við vijum fara og það er erfiðara en að segja það! Draumurinn er að fara til Hawaii en það tekur langan tíma að ferðast og aaaaðeins of dýrt en sá staður er á Bucketlistanum, máske á 5 ára brúðkaupsafmælinu;)

Staðir sem ég ætla mér að heimsækja áður en ég dey:

Hawaii



Bora Bora
Eyjan Capri-Ítalía
Feneyjar-Italía
Skotland
Naples - Ítalía
Sikiley



 Læt staðar numið núna, ég yrði alltof lengi ef ég ætlaði að henda öllum þeim stöðum sem ég ætla mér að heimsækja á ævinni, þarf að fara að sinna barninu og borða! Ég kannski nenni að klára þetta ferðablogg einhverntímann;)

Ps. "Átakið" eða nýji lífstíllinn gengur ágætilega. Ég missti mig smá eftir að ég hætti í einkaþjálfun en náði mér aftur á strik, það þýðir ekkert annað! Þrátt fyrir smá feilspor (súkkulaði!) þá er ég búin að vera dugleg að borða hollt annars og hreyfa mig, svo ég er búin að ná að hrista samviskubitið af mér. Í dag er fótadagur, stinni kúlurass here I come!