mánudagur, 28. október 2013

Nýr dagur, ný tækifæri

Þvílíkt endemis væl í kellu í síðasta bloggi! En svona er þetta, maður fær erfiða daga og þá er ágætt að hafa vettvang þar sem maður getur pústað. 
Í dag er nýr dagur og það er algjörlega nýtt hljóð í mér. Ég týndi aðeins drifkraftinum en fann hann sem betur fer aftur í dag, aftur komin með markmiðin á hreint og er svo jákvæð fyrir öllu:)
Það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi og ég veit að ég get þetta alveg, verð bara að halda áfram þegar erfitt er!

Ég var svakalega sátt með ræktartímann í dag út af nokkrum ástæðum:

1. Ég tók þyngra en áður

2. Þolið er að aukast, var semsé ekki dauð eftir spretti
3. Ég gat gert magaæfingarnar ( 3 mismunandi magaæfingar í þrem settum + magaæfingar í teygju sem mér finnst hell!) næstum án þess að stoppa!
4. Mér varð ekkert óglatt! (Þetta er stór áfangi þar sem ógleðin hefur alltaf eyðilagt helling fyrir mér. Fyrst var mér óglatt allan tímann, í síðasta tíma kom ógleðin síðustu tíu mínúturnar en núna bara enginn, vúhú!)
5. Ég varð miklu orkumeiri eftir ræktina, loksins! 
6. Vigtin fór niður á við:)

Á þessum tveimur vikum á einkaþjálfara þá hef ég misst næstum 2 kíló.
14 október =63 kg
28 október = 61,2 kg


Og frá byrjun ágúst (ég var 67,3 mest, þá mæld seint um kvöld eftir sukk samt!) þá hef ég misst um 6 kíló.

Nú eru tvær vikur eða 5 tímar eftir af einkaþjálfuninni og það verður gaman að sjá hver fituprósentan verður og mælingarnar. Býst samt einhvernveginn ekki við of miklu þar. En þetta er samt langhlaup, ég hef ennþá tæpa 10 mánuði í brúðkaupið!:) 


Yfir og út! 

fimmtudagur, 24. október 2013

Í dag er fyrsti dagurinn sem ég hreinlega gekk á vegg.

Allt einu virtist allt of erfitt, ég varð pirruð yfir því að geta ekki fengið mér það sem ég vildi. Af hverju í ósköpunum mátti ég ekki fá mér heimilisbrauð með 26% osti og smá kokteilssósu eins og áður, af hverju mátti ég ekki fá mér eggjahræru með rauðunni eins og áður, af hverju þarf ég að neyða í mig þennan hörmulega hafragraut á hverjum morgni!?? Ó þessi hörmulega óspennandi bragðlausi morgunmaturL!

Ég fékk ógeð á að borða alltaf það sama ( ég kann hreinlega ekki að borða hollt auk þess sem ég hef prufað að neyða ofan í mig t.d. kotasælu og ávexti en ég bara kúgast eins og lítið smábarn!).

Svo dagurinn hljómar nokkurn veginn svona:
Morgunmatur: Hafragrautur,
Morgunkaffi: Hrökkbrauð 11%ostur, sykurlaus sulta stundum
Eggjahræra og/eða kjúklingur með grænmeti,
Eftir rækt/lyftingar: Prótein
Kaffi:  Skyr/hleðsla/banani
Kvöldmatur: Kjúklingur fiskur eða annað með grænmeti. Enginn rjómi, lítil mjólk, enginn unnin matur, ekkert brauð, ekki venjulegt pasta, enginn smurostur eða annað, hollt hollt hollt.
Ég er komin með ógeð á því sama alltaf hreint, ég er komin með ógeð á kjúlla sem var uppáhaldsmaturinn minn og ég er komin með ógeð á því að vera svöng- alltaf.

Þetta er reyndar bara fyrsti dagurinn sem ég hugsa svona. Ég er búin að vera full af metnaði og drifkrafti en í dag þá allt í einu sprakk blaðran! Ég gat ekki hugsað mér að fara einn daginn enn í ræktina og sleppti því ( veit samt að ég fer þá á laugardaginn í staðinn til að ná brennslunni) og mig langaði ekkert meira en í pizzu í kvöldmatinn. Ég endaði á að fá mér banana, þriðja skiptið í röð því það var ekkert til heima nema kjúklingur og hann gat mér ekki hugsað mér!

 Í dag get ég ekki hugsað mér að gera þetta þangað til í ágúst á næsta ári, hvað þá alla ævi! Af hverju er þetta svona erfitt í dag? Af hverju finnst mér hollur venjulegur matur bara ekkert góður? Af hverju langar mig bara að hætta!? (Engar áhyggjur veit alveg hvað þarf að gerast... Undirbúa, plana, kaupa inn, hafa þetta fjölbreytt...Sumt þarf að lærast)

Ath. Taka þarf þessum pósti með varhug, mér líður svona í dag en kannski (vonandi!) ekki á morgun. Nú er ég búin að vera að passa matarræðið og hreyfinguna í 24 daga og ég ætla að fyrirgefa mér daginn í dag og hvernig ég er að hugsa. Á morgun ætla ég að endurstilla mælinn, reyna að finna drifkraftinn aftur, hugsa um markmiðin og taka einn dag í einu!
Næst kemur bjartsýnispóstur!  

Kv. Debbie Downer

föstudagur, 18. október 2013

Þessi ferð sem ég hef hafið er búin að vera bæði erfið og rosalega skemmtileg!
 Ótrúlegt en satt þá er það komið í smá vana því að hreyfa sig svona oft þótt strengirnir séu hrikalegir, ég er líka alltaf að læra betur og betur á hollt matarræði! Fyrstu 2 dagarnir voru virkilega erfiðir...
Ég þráði sykur meira en allt annað og réð ekki við mig, þá daga réðst ég á brownies og skrifaði það skömmustuleg í matardagbókina. Tók  samt eftir því að ég er komin með annan hugsunarhátt en nokkurn tímann áður og þess vegna finnst mér líklegt (nei þess vegna veit ég) að í þetta skipti tekst þetta!

Sagan er nefnilega  venjulega svona: Ég geri „mistök“ og háma í mig eitthvað óhollt. Þannig var eyðilagður dagurinn og því treð ég mig út af ógeði út kvöldið og sleppi því að fara í ræktina því það þýðir hvort sem ekki...!!! (Eins og maður hafi ekki þá einmitt gott að því að hreyfa rassgatið!)

Núna missteig ég mig og vitaskuld varð ég óánægð, (lít samt ekki endilega á þetta sem mistök því að það tók mig mörg ár að borða eins og ég hef gert og því veit ég að það tekur meira en nokkra daga að breyta vananum). Ég dreif mig í ræktina og afgangurinn af kvöldinu var frábær matarlega séð og ég endaði á að vera bara nokkuð ánægð.

Gaman að passa í gömul föt:)
Svo er kellan komin í kjörþyngd samkvæmt BMI (sem ég tek ekkert alltof alvarlega samt!), er semsé alveg efst upp í kjörþyngdinni. Svo á ég um hálft-1 kíló í að sjá 61 komma eitthvað á vigtinni sem er spennandi því þá tölu hef ég ekki séð leeeengi: ) Eeeen aftur, fer ekki of mikið eftir vigtinni samt og ætla mér ekki að verða brjáluð ef sú tala hækkar eða stendur í stað.


Eins og ég sagði í síðsta bloggi þá ætla ég að setja mér einhver markmið fyrir Danmerkurferðina 16 janúar en ég ætla ekki að setja þau fyrr en eftir mánuðinn með einkaþjálfaranum. Semsé markmið í tölum en hinsvegar er ég með annað markmið fyrir Danmerkuferðina. Það er að koma þessum buxum alla vega upp rassinn, jafnvel þótt ég geti ekki hneppt þeim! 


Stærð 38 - Gekk í þeim 2009

sunnudagur, 13. október 2013

Jæja, þá er ég búin að ræða við einkaþjálfarann minn, sem mér leist mjög vel á, og alvöru púlið byrjar á morgun! Hún vigtaði mig, mældi og kleip í fituna mína sem vonandi kveður innan skamms og tók niður allar tölur. Svo núna er ekkert nema metnaður og dugnaður og ég ætla svo sannarlega að gera mitt besta! Ég mun hitta hana 3x í viku og svo á ég að brenna 2x í viðbót, svo 5 daga í viku skunda ég í ræktina. Það gæti jafnvel orðið svo gott að ég fái mér smá labbitúr með litla dýrinu og manninum þegar ég á frí í ræktinni en ég læt það samt bara ráðast. Svo er harkan sex þegar kemur að matarræðinu, það verður borðað á 2-3 tíma fresti, ekkert nammi (fæ samt nammidag sko!) og nóg að vatni. Ég á að senda einkaþjálfaranum matardagbók á hverju kvöldi sem mér finnst alveg frábærtJ Ég mun gera mitt allra besta en ég ætla að reyna að passa mig á að rífa mig ekki niður ef dagurinn fer ekki eins og ég vildi. Reyna að hugsa að ef ég fæ mér eitt nammi t.d. þá er dagurinn ekki ónýtur og því háma ég ekki í mig það sem eftir er dagsins! Þetta er ekki átak fyrir mér þótt ég hafi markmið að brúðkaupinu, þetta er nefnilega lífstíðarbreyting, ég vil halda áfram að hreyfa mig og borða hollt eftir brúðkaupið.
En mælingar sýndu:

Kíló: 63
Þar af fita: 19,68 kg
Fituprósenta: 31,25%

Næstum 20 kíló af fitu! Það verður nóg að gera hjá mér;) 
Ég er að hugsa að setja mér fyrsta markmiðsdag 16. Janúar þegar ég fer út til Danmerkur. Hvert markmiðið verður er ég ekki alveg búin að ákveða en ég ætla að tala við einkaþjálfarann um hvað sé raunhæft. Spennandi stuff!
Annað í fréttum er að ég komst í hettupeysu sem hefur ekki passað á mig í um 3 ár og ég var ekkert svakalega fúl með þaðJ Hún var þröng, játa það en ég náði nú samt að troða mér í hana;)

Wish me luck!


mánudagur, 7. október 2013

Ó hreyfing

Þessi vika sem var að líða er búin að vera alveg yndisleg! 

Ég fór út að borða með gömlum æskuvinkonum og það var talað og hlegið þangað til að við fórum heim, Nadía kom í helgarheimsókn sem gladdi bæði mitt hjarta en þá sérstaklega Natalíu sem dýrkar frænku sína og ég pantaði flug til Danmerkur! Fæ loksins að fara í heimsókn til Maríu vinkonu ( í janúar) sem ég hef ætlað mér að gera í mörg ár og það er ekkert verra að ná janúarútsölunum:D


Ég var líka einstaklega dugleg þessa viku og hreyfði mig alveg heilan helling! Fór út að hjóla, labba, fór í body combat, vibe cycle (ái rassinn!) og body pump... Talandi um body pump...
Ég ákvað að það væri mjög sniðugt að hafa það fyrsta tímann (hef ekki hreyft mig í meira en 2 ár!) en ég gerði mér fljótt grein fyrir því að það var rangt. Eftir 40 mínútur var ég farin að titra, ég fékk aðsvif og svo varð mér óglatt, reyndar það óglatt að ég þurfti að hlaupa úr tímanum og skila því sem ég hafði borðað yfir daginn... Ég skreið þó aftur inn í tímann til að klára og fékk meðaumkunar augnarráð frá konunni við hliðina á mér. Líkaminn daginn eftir þessa æfingu var vægast sagt aumur, ég átti erfitt með að borða og klæða mig í föt! En það var alveg þess virði;)


Ég stóð mig líka ágætilega í mataræðinu þótt að það hafi lítið verið um grænmeti og ávexti. Ég fór líka undir 63 kíló í vikunni sem eru undur og stórmerki því það eru um 4 ár sirka síðan ég sá þá tölu á vigtinni! Svo frá því að Andrés bað mín þá hef ég misst tæplega 3,5 kíló:) En ég ætla nú ekki að fara of mikið eftir vigtinni í öllu þessu progressi, sérstaklega ekki eftir að ég fer að lyfta. 


Helgarnar eru samt alltaf erfiðastar fyrir mig. Nammidagurinn á það til að lengjast og mér finnst alltaf eins og það megi leyfa sér út af því að það er helgi.. Svo var víst nammidagur í dag líka (borðaði kex) en ég kem aftur sterk inn, það er semsé ekki nammidagur þangað til næsta laugardag;) Fer líka í ræktina á morgun.


Ég er komin með annað stefnumót við einkaþjálfara, dagurinn er 14 október. Svo þetta fer allt að skella á og ég er farin að hlakka til! Finnst það svo mikill byrjunarreitur því þá verður mælt mig og ég hef eitthvað til að miða við. Wish me luck!


þriðjudagur, 1. október 2013

Þakklæti

Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki verið nógu þakklát fyrir allt það sem ég hef fengið í lífinu, ég hef tekið öllu sem sjálfsögðum hlut! En það varð breyting á í kvöld og ég datt í svo væmið skap að ég fór næstum því að gráta. Það er mjög hvimleið aukaverkun þess að eignast eitt stykki afkvæmi, það er miklu styttra í tárin og það hefur verið komið að mér grátandi yfir hundaauglýsingu! En ég held að öllum sé hollt að upplifa smá væmni í lífinu ef svo má kalla.
Ég sá svo skýrt hvað ég er heppin og hvað ég hef það gott, betra en gott. Ég hef komið svo langt síðan ég var ung og eina sem ég vildi var að sofna...


Barnæskan var mér nefnilega ekki svo auðveld og ég get reyndar fullyrt að hún var mér helvíti of oft og þá er ég að tala um skólann. Ég fór í nýjan skóla þegar ég var tíu ára og fljótlega byrjaði eineltið sem varð mér svo erfitt á tímum að ég grét á hverjum degi og var ég nánast komin með magasár af kvíða og áhyggjum. Hver dagur var mér erfiður þó svo að sumir dagar væru betri en aðrir.
Mér kveið fyrir að labba meðfram krökkum í frímínútum í ótta um að þau myndu segja eitthvað við mig og ég faldi mig oft inn á klósetti þegar kom að hádegismat (eftir hann) því þá var líklegra að einhver myndi segja eitthvað við mig. Ég var mjög viðkvæm sem gerði þetta ekki auðveldara og krakkarnir sáu höggstað á mér. 

Þetta leiddi í félagskvíða og þunglyndi og á tímabili varð þetta svo slæmt að það sem huggaði mig var að hugsa hvernig ég gæti tekið mitt eigið líf. Ég get ekki útskýrt almennilega hvernig mér leið, þetta var svo erfiður tími...

Smám saman fór ég að verða sterkari og ég hætti að brjóta mig svona mikið niður fyrir allt það sem ég gerði rangt en afleiðingar eineltinsins hefur fylgt mér í gegnum lífið og litað það sem ég hef tekið mér fyrir hendur.

 En þá komum við að deginum í dag!
Ég á frábært líf, fullt af gleði, ást og umhyggju. Ég þarf varla að hafa áhyggjur af neinu, ég þarf ekki að kvíða fyrir neinu, ég á fólk sem styður mig og elskar, ég á mann sem gerir allt fyrir mig og sem lætur mig vita að ég er yndisleg, ég á heilbrigða, fallega dóttur sem gerir mig ennþá sterkari en ég hef nokkurn tímann verið! Ég hef öll tækifæri í heiminum, ég get gert hvað sem ég vil og ég er heppin!
Mig langar svo að geta sagt við börnin sem er í sömu sporum og ég var, að þetta verður betra! Ég mun líka gera það sem ég get til að kenna Natalíu virðingu og samkennd með öðrum, það er loforð!!!