þriðjudagur, 24. september 2013

Ekkert deit í dag...

I got stood up!
Ekkert deit fyrir mig í dag og verður væntanlega ekki fyrr en í október... En ég mun að sjálfsögðu ekki láta deigann síga heldur mun ég fara kraftmikil og full af orku (eða okey, semí kraftmikil og með dass af orku vonandi) í ræktina. Ein... Alein... Enginn til að fylgjast með mér hreyfa mig, enginn til að kalla mig aumingja og enginn til að segja að ég hafi staðið mig vel, einhver sem býður sig fram?

Ég mun semsé kaupa kort í Átak á fimmtudaginn og ég ætla að fara í hóptíma, hlakka til þess:)
Er líka búin að vera þvílíkt dugleg í matarræðinu ( 2 kexkökur um kvöldið og kjöt í piparsósu í kvöldmat reyndar) en það er nú samt gott miðað við slyttið sem át hamborgara með bernessósu og djúpsteiktum frönskum á milli í nánast hvert mál! Okey kannski ekki í hvert mál, ég borðaði líka pizzur, snúða og annað bakarísbrauð í kaffi og við skulum muna eftir gellunni sem fékk sér súkkulaði í morgunmat!

Þangað til næst


sunnudagur, 22. september 2013

Batnandi mönnum er best að lifa

Ég á deit í næstu viku sem ég hlakka mjög mikið til. Ég er líka með kvíðahnút í maganum og er hrædd um að ég komi ekki nógu vel út... Ég á nefnilega deit með einkaþjálfara á þriðjudaginn og hann bað mig um að skrifa niður matardagbók þangað til að ég hitti hann! Tja eða hún, þar sem þjálfarinn er kvennkyns;)
 Hún á eftir að fá áfall!
 Ég fékk alla vega áfall (þótt ég hafi vitað að þetta væri slæmt) því ég er ekki vön að skrifa niður allt þetta ógeð og þurfa að lesa yfir þetta. Það er nánast allt eitthvað unnið (pylsur, kakósúpur etc...) og inn á milli eitthvað með sykri til að fá orku. Ég þarf að viðurkenna að einn morguninn fékk ég mér súkkulaði í morgunmat því að ég var svo orkulaus og það lá á stofuborðinu og starði á mig! Mér leið ekkert sérlega vel með sjálfa mig þegar ég var búin að gúlpa því í mig... En batnandi mönnum er best að lifa, ég er að fara að breyta til og ég hlakka til!:)


Í gær borðaði ég það sem ég vildi og keypti mér bland í poka sem ég borðaði yfir X factor. En ég tók ákvörðun um að morgundagurinn yrði betri, það yrði ekkert nammi eða sætindi þangað til næsta laugardag og ég ætlaði að vera meðvituð um hvað ég var að láta ofan í mig. Ég ætlaði að leyfa mér það sem ég vildi, eins mikið og ég vildi þangað til að ég myndi hitta einkaþjálfarann, það var viðmiðið og ég myndi byrja í átakinu þá. En svo rann upp fyrir mér að það er ekki góður hugsunarháttur, ekki að mínu mati alla vega! Þetta er svona eins og þeir sem ætla að hætta að reykja, keðjureykja marga pakka því þeir vita að þeir séu að fara að hætta, ekki beint besta viðhorfið.
Ég get þá vonandi látið hana fá matardagbókina með aðeins minni skelfingu en ella, gæti jafnvel troðið smá ávöxtum og grænmeti í hana, úú dugleg!;) 
Enda þetta á myndum sem veita mér innblástur!




fimmtudagur, 19. september 2013

Ekki er allt sem sýnist...

Ég las grein um daginn á bleikt.is sem bar fyrirsögnina ,,Það velur sér enginn móðir að líða svona". Sú grein snerti strengi hjá mér og mér leið hálf ónotalega þegar ég las hana en mér finnst mikil þörf á þessari umræðu. Eftir að ég las þessa grein þá hefur þetta umræðuefni legið á mér og mig langaði að tjá mig um líðan mína eftir fæðingu Natalíu dóttur minnar. 

Meðgangan gekk vonum framar og mér leið mjög vel andlega og líkamlega þrátt fyrir að síðustu mánuðirnir væru svolítið erfiðir, þar sem ég fékk örlitla grindagliðnun. 2 Nóvember fékk ég fyrstu hríðarnar og það var mikill spenningur og tilhlökkun ásamt kvíða líka, ég var samt mjög jákvæð og var viss um að fæðingin yrði stutt og friðsæl. Ég sá fyrir mér stundina: Við foreldrarnir brosandi í kertaljósi með litla hnoðrann og ég horfandi ástaraugum á litlu elskuna mína. Það fór ekki þannig...

Ferlið var langt, ég var mjög svefnvana og það tókst illa að koma einhverri næringu ofan í mig, þessi litla næring sem ég náði að koma ofan í mig kom upp aftur. Eftir 30 tíma í æfingum, hossum og vanlíðan þá komst kollurinn loks niður og ég fékk að heyra að ég mætti byrja að rembast sem gaf mér mikinn kraft! Klukkutíma síðar kom litla Natalían mín, lítil falleg lubbalína sem var strax lögð á magann á mér.

Ég var mjög dofin þegar hún kom í heiminn og ég fann í rauninni ekki neina tilfinningu nema létti. Stuttu seinna þá varð allt í einu mikill erill á starfsfólkinu, kveikt var á flúorljósunum, það hljóp fólk inn og Natalía var tekin. Ástæðan var sú að mér blæddi mjög mikið vegna rifu og vegna þess að legið gekk ekki nógu vel saman.
Hálftíma síðar þá var búið að ná stjórn á blæðingunni og ég var látin standa upp úr rúminu, þar beið ég nakin að ofan á meðan starfsmaður náði í nýtt rúm og skyrtu handa mér. Ég man eftir að mér var ískallt, mér fannst ég alein og ég sá ekki litlu mína sem var verið að vigta því að það stóð fólk fyrir, mér fannst ég ekki vera neitt. Samt skal taka fram að þetta var eflaust bara mínúta eða minna og ég fékk mjög góða ummönun, bæði frá fjölskyldu og starsfólki! En það breytir því ekki að svona leið mér og þetta hefur legið mikið á mér og ég tel að allt þetta ferli hafi haft þátt í því hvernig mér leið eftir allt saman.
Ég var dauðþreytt eftir fæðinguna og Natalía var aðallega í vöggunni sinni eða hjá pabba sínum, ég var of búin á því til að halda á henni. 

Ég var mjög slöpp þegar ég fór heim og var aum í brjóstunum. Ég fékk næstum strax sár á geirvörtuna og það var nístandi sárt að gefa Natalíu, mér kveið fyrir hverri gjöf og grét í hvert skipti sem hún drakk... Stuttu seinna kom í ljós að ég var með slæma sýkingu í brjóstinu og ég eyddi næstu 4 dögum á sjúkrahúsinu með pensilín í æð, ég þurfti að láta kreista gröft upp úr brjóstinu á hverjum degi og þetta var eitt það sársaukafyllsta sem ég hef lent í. Ég komst svo loksins heim en það tók ekki mikið betra við.

 Mér leið svo illa að mig langaði að hverfa og öll dagleg verk voru óyfirstíganleg. Versta var að ég tengdist ekki barninu mínu, ég vildi stundum ekki hafa hana í fanginu og það var tími þar sem ég tók hana aðeins þegar ég átti að gefa henni og það voru ekki beint stundir til að byggja upp sambandið okkar... Ég var uppfull af samviskubiti og sjálfshatri, ég skildi ekki af hverju ég gat ekki tengst barninu mínu! Yndislega fallega barnið mitt, af hverju vildi ég stundum ekki einu sinni vera nálægt henni?
Ég ákvað að ég væri hreinlega ekki gerð til að vera mamma og ég grét mig í svefn á hverju kvöldi yfir þetta tímabil.


Smám saman létti yfir, ég fór að kynnast stelpunni minni og ég lærði að elska hana en það tók upp undir 2 mánuði fyrir mig og skammast mín fyrir það. En ég vil ekki skammast mín fyrir það lengur, ég vil ekki vera með samviskubit yfir þessum tíma sem ég get ekki breytt og ég vil einbeita mér að tilfinningunni sem Natalía gefur mér í dag! Ég hef aldrei elskað jafn mikið og ég elska þessa stelpu, ég elska hana svo heitt að mér finnst stundum eins og hjartað hljóti að springa og ég er svo þakklát fyrir að finna þessa tilfinningu gagnvart henni. Ég er svo ánægð að ég hafi komist í gegnum þetta og að ég hafi fengið þá vissu að ég á að vera mamma hennar! Ég er þakklát fyrir þetta hlutverk því Natalía hefur gert mig að miklu betri manneskju en ég var fyrir, hún er einfaldlega lífið mitt og hjarta og ég gæti ekki ímyndað mér lífið án hennar!

mánudagur, 16. september 2013

Blogg? Er það ekki svolítið 2006?

Fyrsti í bloggi! 

Það eru orðin nokkur ár síðan ég skrifaði síðast og nokkrar hrukkur búnar að bætast í sarpinn ásamt einu stykki barni, húsi og öðru! 
Ég hef fengið mikla þörf til að tjá mig, skrifa niður hugsanir mínar, sérstaklega tengdum nýjum lífstíl því það hjálpar mér að halda utan um hugsanirnar og það er líka bara svo gaman:)

Núna er þetta þriðji dagur í veikindum og í rúminu liggur flykki með hor í nös og eitt stykki * "scrunchie" í hárinu.

 (ATH. Gæti farið afar frjálslega með gæsalappir og annað slíkt auk þess að það gætu komið enskusléttur hér og þar  sem mér finnst oft pirrandi sjálfri en it's my blog and I can do what I want to *syngist*)

 ( ATH2.Ég gæti einnig móðgað íslenska málfræði og farið mínar eigin leiðir eins og að vera með tíu línur án punkta og svo þarf að vara sig og helst hoppa yfir þegar ég reyni að vera fyndin en það gæti gerst endrum og eins. Eins gæti ég farið rangt með orðatiltæki og ég gæti komið fram með skoðun sem ég verð ekki sammála á morgun, þessu bloggi skal taka með varúð!)

(ATH3. Ég gæti einnig skipt um frásagnastíl, talað um mig í þriðju persónu og hoppað til og frá í tímaramma, semsé ekki uppáhaldsvinur íslenskukennarans!) (Já eða Ölfu systur minnar sem á eftir að falla í yfirlið yfir lestrinum, hún er soddan íslenskuhóra)

Ahh, þegar þetta er úr vegi þá get ég haldið áfram:)
Aftur að flykkinu sem var með hor í nös... Sem betur fer er það allt að koma til og sönnunargögnin eru aðallega jú hor í nös og rautt þurrt nef en ég býst við að ég verði orðin vel spræk á morgun. ( Ætlaði að koma með svaka pistil um veikindin en ákvað svo að engin nennti að hugsa um það, þá síst ég!)

Nú skulum við víkja að matarræðinu góða! Eða ekki góða, það hefur aldrei verið mín sterkasta hlið að borða hollt og gott og var t.d. kókópuffs uppistaðan fæðunnar frá aldrinum 12-14 ára.Svona leit dagurinn minn út:

Innblástur!
07:15 - Kókópuffs
12:00 - Matur í skólanum guðs sé lof. 
16:00 - Kókópuffs
19:00 - Kvöldmatur (Það er mömmu að þakka að ég náði þó upp í 1.60 cm sem var þó ekki mikið afrek)
21:00 - Kókópuffs.

Þetta er ekki grín, svona var matarræðið mitt.
 Ég man eftir því að þegar ég vildi "tríta" mig þá fékk ég mér kókópuffs og kók með. Þegar ég var enn yngri þá var mjög vinsælt að taka með sér nesquick pokann og skeið og borða upp úr honum og skola þessari dásemd með misheitu kóki! 
Já ég veit, nammi!
Ég sagði ykkur að matarræðið hafi verið hræðilegt.

Nú er komið að þeim tímapunkti að ég vil breyta til! Ég vil breyta matarræði mínu, venjum mínum og hreyfingu (eða hreyfingaleysi) og verða heilbrigð og ánægð. Ekki síst vegna þess að nú á ég eina gullfallega dóttur sem ég vil að alist upp við hollan og góðan mat svo það er ekki seinna en vænna að fara að huga að þessum málum. Já og ekki má gleyma því að ég vil líta vel út á giftingadaginn minn, markmiðið mitt er að alla vega einn hafi orð á því að það væri fjandi leitt að ég væri frátekin. ( Kannski væri það samt krípí þar sem alla vega helmingurinn er blóðskyldur mér...)

Núna er ferðin að hefjast, ég er að fara að kaupa kort í ræktina sem ég hef ekki gert í nokkur ár  (Mjög góð ákvörðun!) og ég er búin að hafa samband við einkaþjálfara og er búin að biðja um deit! 
Mér kvíður mjög mikið fyrir því ég er ein af þeim sem á mjög erfitt með að vera hörð við sjálfa mig. Um leið og ég finn líkamleg óþægindi þá verð ég kvíðin og þegar mér líður illa þá LÍÐUR MÉR ILLA. Herra unnusti getur víst vottað fyrir það!;) 
Í þetta skipti vil ég vera hörð við sjálfa mig, ég vil gera mitt besta og ég hlakka líka óumræðanlega til að ná mínum markmiðum og vera ánægð með sjálfa mig 16 ágúst 2014!

Læt þetta nægja í bili, þangað til næst!

Amanda

*Scrunchie: a fabric-covered elastic

 used for holding back hair (as in a ponytail)