þriðjudagur, 1. október 2013

Þakklæti

Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki verið nógu þakklát fyrir allt það sem ég hef fengið í lífinu, ég hef tekið öllu sem sjálfsögðum hlut! En það varð breyting á í kvöld og ég datt í svo væmið skap að ég fór næstum því að gráta. Það er mjög hvimleið aukaverkun þess að eignast eitt stykki afkvæmi, það er miklu styttra í tárin og það hefur verið komið að mér grátandi yfir hundaauglýsingu! En ég held að öllum sé hollt að upplifa smá væmni í lífinu ef svo má kalla.
Ég sá svo skýrt hvað ég er heppin og hvað ég hef það gott, betra en gott. Ég hef komið svo langt síðan ég var ung og eina sem ég vildi var að sofna...


Barnæskan var mér nefnilega ekki svo auðveld og ég get reyndar fullyrt að hún var mér helvíti of oft og þá er ég að tala um skólann. Ég fór í nýjan skóla þegar ég var tíu ára og fljótlega byrjaði eineltið sem varð mér svo erfitt á tímum að ég grét á hverjum degi og var ég nánast komin með magasár af kvíða og áhyggjum. Hver dagur var mér erfiður þó svo að sumir dagar væru betri en aðrir.
Mér kveið fyrir að labba meðfram krökkum í frímínútum í ótta um að þau myndu segja eitthvað við mig og ég faldi mig oft inn á klósetti þegar kom að hádegismat (eftir hann) því þá var líklegra að einhver myndi segja eitthvað við mig. Ég var mjög viðkvæm sem gerði þetta ekki auðveldara og krakkarnir sáu höggstað á mér. 

Þetta leiddi í félagskvíða og þunglyndi og á tímabili varð þetta svo slæmt að það sem huggaði mig var að hugsa hvernig ég gæti tekið mitt eigið líf. Ég get ekki útskýrt almennilega hvernig mér leið, þetta var svo erfiður tími...

Smám saman fór ég að verða sterkari og ég hætti að brjóta mig svona mikið niður fyrir allt það sem ég gerði rangt en afleiðingar eineltinsins hefur fylgt mér í gegnum lífið og litað það sem ég hef tekið mér fyrir hendur.

 En þá komum við að deginum í dag!
Ég á frábært líf, fullt af gleði, ást og umhyggju. Ég þarf varla að hafa áhyggjur af neinu, ég þarf ekki að kvíða fyrir neinu, ég á fólk sem styður mig og elskar, ég á mann sem gerir allt fyrir mig og sem lætur mig vita að ég er yndisleg, ég á heilbrigða, fallega dóttur sem gerir mig ennþá sterkari en ég hef nokkurn tímann verið! Ég hef öll tækifæri í heiminum, ég get gert hvað sem ég vil og ég er heppin!
Mig langar svo að geta sagt við börnin sem er í sömu sporum og ég var, að þetta verður betra! Ég mun líka gera það sem ég get til að kenna Natalíu virðingu og samkennd með öðrum, það er loforð!!!


Engin ummæli:

Skrifa ummæli