fimmtudagur, 24. október 2013

Í dag er fyrsti dagurinn sem ég hreinlega gekk á vegg.

Allt einu virtist allt of erfitt, ég varð pirruð yfir því að geta ekki fengið mér það sem ég vildi. Af hverju í ósköpunum mátti ég ekki fá mér heimilisbrauð með 26% osti og smá kokteilssósu eins og áður, af hverju mátti ég ekki fá mér eggjahræru með rauðunni eins og áður, af hverju þarf ég að neyða í mig þennan hörmulega hafragraut á hverjum morgni!?? Ó þessi hörmulega óspennandi bragðlausi morgunmaturL!

Ég fékk ógeð á að borða alltaf það sama ( ég kann hreinlega ekki að borða hollt auk þess sem ég hef prufað að neyða ofan í mig t.d. kotasælu og ávexti en ég bara kúgast eins og lítið smábarn!).

Svo dagurinn hljómar nokkurn veginn svona:
Morgunmatur: Hafragrautur,
Morgunkaffi: Hrökkbrauð 11%ostur, sykurlaus sulta stundum
Eggjahræra og/eða kjúklingur með grænmeti,
Eftir rækt/lyftingar: Prótein
Kaffi:  Skyr/hleðsla/banani
Kvöldmatur: Kjúklingur fiskur eða annað með grænmeti. Enginn rjómi, lítil mjólk, enginn unnin matur, ekkert brauð, ekki venjulegt pasta, enginn smurostur eða annað, hollt hollt hollt.
Ég er komin með ógeð á því sama alltaf hreint, ég er komin með ógeð á kjúlla sem var uppáhaldsmaturinn minn og ég er komin með ógeð á því að vera svöng- alltaf.

Þetta er reyndar bara fyrsti dagurinn sem ég hugsa svona. Ég er búin að vera full af metnaði og drifkrafti en í dag þá allt í einu sprakk blaðran! Ég gat ekki hugsað mér að fara einn daginn enn í ræktina og sleppti því ( veit samt að ég fer þá á laugardaginn í staðinn til að ná brennslunni) og mig langaði ekkert meira en í pizzu í kvöldmatinn. Ég endaði á að fá mér banana, þriðja skiptið í röð því það var ekkert til heima nema kjúklingur og hann gat mér ekki hugsað mér!

 Í dag get ég ekki hugsað mér að gera þetta þangað til í ágúst á næsta ári, hvað þá alla ævi! Af hverju er þetta svona erfitt í dag? Af hverju finnst mér hollur venjulegur matur bara ekkert góður? Af hverju langar mig bara að hætta!? (Engar áhyggjur veit alveg hvað þarf að gerast... Undirbúa, plana, kaupa inn, hafa þetta fjölbreytt...Sumt þarf að lærast)

Ath. Taka þarf þessum pósti með varhug, mér líður svona í dag en kannski (vonandi!) ekki á morgun. Nú er ég búin að vera að passa matarræðið og hreyfinguna í 24 daga og ég ætla að fyrirgefa mér daginn í dag og hvernig ég er að hugsa. Á morgun ætla ég að endurstilla mælinn, reyna að finna drifkraftinn aftur, hugsa um markmiðin og taka einn dag í einu!
Næst kemur bjartsýnispóstur!  

Kv. Debbie Downer

Engin ummæli:

Skrifa ummæli