fimmtudagur, 19. september 2013

Ekki er allt sem sýnist...

Ég las grein um daginn á bleikt.is sem bar fyrirsögnina ,,Það velur sér enginn móðir að líða svona". Sú grein snerti strengi hjá mér og mér leið hálf ónotalega þegar ég las hana en mér finnst mikil þörf á þessari umræðu. Eftir að ég las þessa grein þá hefur þetta umræðuefni legið á mér og mig langaði að tjá mig um líðan mína eftir fæðingu Natalíu dóttur minnar. 

Meðgangan gekk vonum framar og mér leið mjög vel andlega og líkamlega þrátt fyrir að síðustu mánuðirnir væru svolítið erfiðir, þar sem ég fékk örlitla grindagliðnun. 2 Nóvember fékk ég fyrstu hríðarnar og það var mikill spenningur og tilhlökkun ásamt kvíða líka, ég var samt mjög jákvæð og var viss um að fæðingin yrði stutt og friðsæl. Ég sá fyrir mér stundina: Við foreldrarnir brosandi í kertaljósi með litla hnoðrann og ég horfandi ástaraugum á litlu elskuna mína. Það fór ekki þannig...

Ferlið var langt, ég var mjög svefnvana og það tókst illa að koma einhverri næringu ofan í mig, þessi litla næring sem ég náði að koma ofan í mig kom upp aftur. Eftir 30 tíma í æfingum, hossum og vanlíðan þá komst kollurinn loks niður og ég fékk að heyra að ég mætti byrja að rembast sem gaf mér mikinn kraft! Klukkutíma síðar kom litla Natalían mín, lítil falleg lubbalína sem var strax lögð á magann á mér.

Ég var mjög dofin þegar hún kom í heiminn og ég fann í rauninni ekki neina tilfinningu nema létti. Stuttu seinna þá varð allt í einu mikill erill á starfsfólkinu, kveikt var á flúorljósunum, það hljóp fólk inn og Natalía var tekin. Ástæðan var sú að mér blæddi mjög mikið vegna rifu og vegna þess að legið gekk ekki nógu vel saman.
Hálftíma síðar þá var búið að ná stjórn á blæðingunni og ég var látin standa upp úr rúminu, þar beið ég nakin að ofan á meðan starfsmaður náði í nýtt rúm og skyrtu handa mér. Ég man eftir að mér var ískallt, mér fannst ég alein og ég sá ekki litlu mína sem var verið að vigta því að það stóð fólk fyrir, mér fannst ég ekki vera neitt. Samt skal taka fram að þetta var eflaust bara mínúta eða minna og ég fékk mjög góða ummönun, bæði frá fjölskyldu og starsfólki! En það breytir því ekki að svona leið mér og þetta hefur legið mikið á mér og ég tel að allt þetta ferli hafi haft þátt í því hvernig mér leið eftir allt saman.
Ég var dauðþreytt eftir fæðinguna og Natalía var aðallega í vöggunni sinni eða hjá pabba sínum, ég var of búin á því til að halda á henni. 

Ég var mjög slöpp þegar ég fór heim og var aum í brjóstunum. Ég fékk næstum strax sár á geirvörtuna og það var nístandi sárt að gefa Natalíu, mér kveið fyrir hverri gjöf og grét í hvert skipti sem hún drakk... Stuttu seinna kom í ljós að ég var með slæma sýkingu í brjóstinu og ég eyddi næstu 4 dögum á sjúkrahúsinu með pensilín í æð, ég þurfti að láta kreista gröft upp úr brjóstinu á hverjum degi og þetta var eitt það sársaukafyllsta sem ég hef lent í. Ég komst svo loksins heim en það tók ekki mikið betra við.

 Mér leið svo illa að mig langaði að hverfa og öll dagleg verk voru óyfirstíganleg. Versta var að ég tengdist ekki barninu mínu, ég vildi stundum ekki hafa hana í fanginu og það var tími þar sem ég tók hana aðeins þegar ég átti að gefa henni og það voru ekki beint stundir til að byggja upp sambandið okkar... Ég var uppfull af samviskubiti og sjálfshatri, ég skildi ekki af hverju ég gat ekki tengst barninu mínu! Yndislega fallega barnið mitt, af hverju vildi ég stundum ekki einu sinni vera nálægt henni?
Ég ákvað að ég væri hreinlega ekki gerð til að vera mamma og ég grét mig í svefn á hverju kvöldi yfir þetta tímabil.


Smám saman létti yfir, ég fór að kynnast stelpunni minni og ég lærði að elska hana en það tók upp undir 2 mánuði fyrir mig og skammast mín fyrir það. En ég vil ekki skammast mín fyrir það lengur, ég vil ekki vera með samviskubit yfir þessum tíma sem ég get ekki breytt og ég vil einbeita mér að tilfinningunni sem Natalía gefur mér í dag! Ég hef aldrei elskað jafn mikið og ég elska þessa stelpu, ég elska hana svo heitt að mér finnst stundum eins og hjartað hljóti að springa og ég er svo þakklát fyrir að finna þessa tilfinningu gagnvart henni. Ég er svo ánægð að ég hafi komist í gegnum þetta og að ég hafi fengið þá vissu að ég á að vera mamma hennar! Ég er þakklát fyrir þetta hlutverk því Natalía hefur gert mig að miklu betri manneskju en ég var fyrir, hún er einfaldlega lífið mitt og hjarta og ég gæti ekki ímyndað mér lífið án hennar!

1 ummæli:

  1. Vá hvað þetta var falleg færsla! Ég hefði sennilega ekki átt að lesa hana í miðjum tíma.. með tárin niður kinnarnar.

    Ég veit að þú ert búin að fá að heyra þetta milljón sinnum, en þetta er svo eðlilegt! Ég kannast við svo allt of margt af því sem þú skrifaðir. Alltof margt. En maður lærir.. og maður tengist, og einn daginn.. þá finnst manni ótrúlegt að einu sinni hafi þetta verið svona erfitt.

    Ég er til dæmis að upplifa örlítinn ótta yfir því að kannski verði þetta eins, eða verra með litla strákinn minn. En ég ætla að reyna mitt besta, og ég ætla að tala um það og ekki leyfa því að verða að eitri í hjartanu mínu aftur. :*

    SvaraEyða